Skólanámskráin byggir á aðalnámsskrá grunnskóla og er nánari útfærsla skólans á þeim markmiðum sem hún setur grunnskólum. Hún á að spegla skólastarfið í NÚ eins og það er, sérkenni skólans og aðstæður. Námskráin er því eins og skólastarfið í NÚ í sífelldri þróun og tekur í framtíðinni breytingum samkvæmt því.

Almennan hluta námskrárinnar er að finna í tengli neðan í þessu skjali. Kennsluáætlanir breytast frá ári til árs og innihalda upplýsingar um það námsefni sem notað er hverju sinni, tímaáætlanir, verkefni og vægi mismunandi þátta námsgreinarinnar í námsmati. Í námskrárhlutanum er svo að finna þau markmið/hæfniviðmið sem við sækjumst eftir að ná í mismunandi greinum og árgöngum. Unnið er að innleiðingu nýrrar Aðalnámskrár sem kom endanlega út árið 2013 í samræmi við breytta menntastefnu.  

NÚ er skóli fyrir unglinga í 8.-10.bekk og þar er lögð áhersla á að nemendur beri aukna ábyrgð sínu námi. Stefna NÚ er að efla sjálfræði nemenda og sjálfstæði í vinnubrögðum. Námsumhverfi nemenda er að stærstum hluta rafrænt. Allir nemendur fá netfang hjá NÚ  og aðgang að Google Classroom umhverfi. Áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám.

Við gerð námsáætlana er miðað við hæfniviðmið sem tilgreind eru í Aðalnámskrá grunnskóla. Námsáætlanir eru aðgengilegar á heimasíðu skólans og á Namfus.is. Í öllum árgöngum unglingadeildar verður námsmati hagað samkvæmt matsviðmiðum aðalnámskrárinnar og einkunnir gefnar í bókstöfum og/eða með umsögn.

NÚ starfar eftir lotukerfi þar sem unnið er með þrjú námsfög í þrjár vikur í senn. í lok hverrar lotu fá nemendur og foreldrar sent heim námsmat lotu ásamt yfirliti yfir mætingu.

Í NÚ hafa með breyttum námsaðferðum orðið til nokkur nýyrði sem munu festast í orðaforða starfsmanna og nemenda með tímanum. Einvera = nemendur vinna einir með sjálfum sér. Samvera = Allir nemendur eða stærri hópar taka á móti upplýsingum. Hópvera = nemendur starfa saman í hópastarfi. NÚvera = Allir dagar í NÚ hefjast með NÚveru þar sem nemendur og starfsmenn horfa inn á við, læra öndun, fara yfir markmið/gildi og gera léttar og uppbyggjandi líkamsæfingar.

Í NÚ er starfrækt nemendaráð sem skipuleggur félagslega viðburði ásamt skólastjóra og öðrum starfsmönnum. NÚ hefur þá stefnu að taka þátt í öllum félagslegum viðburðum og keppnum sem í boði eru hverju sinni. Allir nemendur sem gefa kost á sér til starfa að félagsmálum fá tækifæri til þess. Hefðbundnar uppákomur eru m.a. Óvissuferð að hausti, vorferð, þorrablót, spurningakeppni grunnskólanna, skólahreysti og árshátíðin. Auk þessa eru ýmiss konar skemmtanir yfir skólaárið.

Nemendur 10. bekkja fá að kynnast þeim námsleiðum sem eru í boði eftir grunnskólann. Framhaldsskólar halda kynningar og opin hús á vorönn þar sem kynnt er það nám sem í boði er. Námsráðgjafi skólans sér um að upplýsa nemendur og foreldra um kynningar á framhaldsnámi. Námsráðgjafi tekur einstaklingsviðtöl við alla nemendur í 10.bekk þar sem farið er yfir nám og stöðu og hugað að framtíðinni. Námsráðgjafinn heldur auk þess stutt námskeið í námstækni og er alltaf tilbúinn að leiðbeina þeim sem á þurfa að halda.

Skólanámskrá NÚ