Markmið okkar

Skólinn er fyrst og fremst fyrir krakka sem stunda íþróttir. Með nútímatækni og nútímakennsluaðferðir að vopni viljum við staðfæra allt það besta úr heimi íþróttanna yfir í skólaumhverfið.

Við leggjum áherslu á frelsi nemanda til að nálgast námið á eigin forsendum. Við viljum skapa umhverfi þar sem nemendur finna til ábyrgðar, áhuga, heilbrigði og umfram allt ánægju.

Með öðrum orðum; við viljum nálgast námið eins og íþróttamaður nálgast grein sína.

Nýtt að frétta

Markmið

NÚ vill veita unglingum tækifæri til að samtvinna íþróttaáhuga sinn og grunnskólanám þar sem nemandinn sinnir námi sínu af sama áhuga og íþróttinni. Með nútímatækni og nýjum kennsluaðferðum veitum við nemendum frelsi til að nálgast námið á eigin forsendum. Við viljum skapa umhverfi þar sem nemendur finna til ábyrgðar, áhuga, heilbrigði og umfram allt ánægju.

Hugmyndafræðin

Námið

Sú krafa að allir nemendur meðtaki allt námsefni á sama hraða er óraunhæf. Dýrmætum tíma kennara með nemendum er ekki eytt í að þylja upp staðreyndir, heldur persónulega aðstoð við námsefnið. Nemendur fá tækifæri til að nálgast námsefnið á eigin forsendum og kennarinn aðstoðar hvern og einn nemanda á þeim stað sem hann er staddur. Aukið frelsi nemenda varðandi hvaða fagi skal sinnt hverju sinni eykur að okkar mati frumkvæði og árangur.

Allt námsefnið í einni tölvu

Það að burðast með níðþunga tösku fulla af bókum til og frá skóla heyrir sögunni til. Í takt við þróun tækninnar og umhverfissjónarmið munu öll námsgögn NÚ vera aðgengileg í fartölvu sem hver nemandi fær til afnota. Hana notar nemandinn til þess að leysa verkefni, sitja fyrirlestra og í alla aðra þætti námsins.

Íþróttamennskan

Okkur finnst íþróttaheimurinn vera smækkuð mynd af raunveruleikanum. Íþróttamaðurinn þarf að sigrast á líkamlegum, andlegum og félagslegum hindrunum til að ná árangri. Með markvissri þjálfun, mistökum, leiðréttingum og endurtekningum nær hann tökum á grein sinni. Við viljum hjálpa nemendum að beita sama hugsunarhætti í náminu. Markmið okkar er ekki að framleiða atvinnumenn í íþróttum, heldur atvinnumenn í lífinu. Við viljum smita metnað og markmiðasetningu íþróttaumhverfisins yfir í skólaumhverfið.

Heilsan

Líkamleg heilsa er augljóslega mikilvæg þeim sem stunda íþróttir. Langar setustundir skólalífsins draga úr virkni og áhuga. Við leggjum því áherslu á að nemendur endurnæri sig með reglulegri hreyfingu yfir skóladaginn. Andleg heilsa er ekki síður þýðingarmikill þáttur í lífi íþróttamannsins. Hvatning og jákvætt sjálfstal eru stórir þættir í uppbyggingu sjálfstrausts og einnig stórir þættir í starfi NÚ. Hnattræn lega Íslands gerir það að verkum að bróðurpart skólaársins eru krakkar að fara í og úr skóla í myrkri. Við segjum skammdeginu stríð á hendur og hefjum skólastarfið seinna en hefðbundið þykir. Byrjaðu daginn í dagsbirtu.

Um stjórnendur NÚ

Gísli Rúnar Guðmundsson

Menntastjóri

Sigríður Kristjánsdóttir

Fjármálastjóri

Kristján Ómar Björnsson

Heilsustjóri

Gísli Rúnar Guðmundsson útskrifaðist með mastersgráðu í verkefnastjórnun árið 2015 og sem íþróttafræðingur frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004. Hefur starfað sem grunnskólakennari frá árinu 1999 og hefur yfir 20 ára reynslu af þjálfun barna og unglinga. Er forvitinn, hefur mikinn áhuga á fólki, ferðalögum og sköpun. Elskar samverustundir með fjölskyldunni og íslenska náttúru.

 

Sigríður Kristjánsdóttir útskrifaðist sem þroskaþjálfi árið 1979 og lauk viðbótarnámi til BA-gráðu árið 2002. Lauk meistaragráðu í stjórnun menntastofnana árið 2009 og er viðurkenndur markþjálfi frá HR. Starfaði lengst hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi, sem forstöðumaður, starfsmannastjóri og framkvæmdastjóri stofnunarinnar til 10 ára. Mikil áhugakona um íþróttir og lýðheilsu almennt og stundar útihlaup sér til heilsubótar.

 

Kristján Ómar hefur titlað sjálfan sig sem gleðileitara, forvitring, skólasmið og þjálfara. Hann eyddi sjálfur óhóflega mörgum árum í skóla og, kannski þess vegna, fékk eitt sinn þá flugu í hausinn að stofna íþróttagrunnskóla sem loks hóf starfsemi sína árið 2016 undir nafninu NÚ.

Viltu sækja um hjá NÚ?

Algengar spurningar

Grunnskóli fyrir 8.-10. bekkinga sem leggur áherslu á íþróttir, hreyfingu, heilsu og vendinám. NÚ er viðurkenndur af Menntamálastofnun, starfar samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla og lýtur lögum og reglugerðum um íslenska grunnskóla.

Hafnfirskir nemendur greiða ekki skólagjöld í NÚ. Námsgjöldin skólaárið 2022-23 eru 22.900 kr. á mánuði í 10 mánuði fyrir nemendur í flestum öðrum sveitarfélögum. Sveitarfélög hafa ólíkan hátt á greiðslum til sjálfstætt starfandi skóla vegna nemenda sinna og gæti það haft áhrif á greiðsluþátttöku viðkomandi nemenda. Vinsamlegast kynntu þér fyrirkomulagið í þínu sveitarfélagi.

Við hvetjum alla sem eru á aldrinum 12-15 ára og hafa einlægan áhuga á íþróttum og heilsu til að sækja um hjá NÚ. Grunnreglan er sú að fyrstur kemur, fyrstur fær en við áskiljum okkur rétt til þess að taka mið af búsetu, aldri og kyni nemenda. Umsækjendur eru boðaðir ásamt foreldri eða forráðamanni í viðtal. Heildarfjöldi nemenda í NÚ verður 96 nemendur skólaárið 2022-23, en aðeins eru teknir inn um 30 nýnemar þetta árið.

NÚ hefur sitt aðal aðsetur við Reykjavíkurveg 50 í Hafnarfirði. Íþróttir eru kenndar í Bjarkarhúsinu (250 m frá) og Kaplakrika, sund í Suðurbæjarlaug. List- og verkgreinar eru kenndar í húsi Tækniskólans, hinu megin við götuna, og heimilsfræði í glæsilegri aðstöðu Flensborgarskóla.

Í NÚ er stundað vendinám, þar sem innlögn kennara er fyrirfram aðgengileg á netinu svo hver og einn nemandi geti farið áfram á sínum hraða. Hver nemandi fær fartölvu til fullra afnota á meðan hann stundar nám hjá okkur. Í NÚ er kennt í lotum þar sem 2-3 námsfög eru tekin fyrir og  hverri lotu lýkur með námsmati. Mikil áhersla lögð á að halda nemendum líkamlega virkum gegnum skóladaginn og kyrrseta takmörkuð með ýmsum leiðum. Viltu vita meira um vendinám? Smelltu þá hér

Í viðmiðunarstundarskrá Aðalnámskrár fyrir unglingastig eru tæp 10% af námstímanum til ráðstöfunar fyrir valgreinar nemenda. Að mestu leyti er dagleg upplifun nemenda af því að vera í NÚ óháð því hvaða námsbraut er valin, en þessi 10% af tímanum eru í raun valin fyrirfram fyrir nemendann fyrir námfög sem tengjast viðkomandi braut.

  • Nemendur á Afreksíþróttabraut fara í gegnum bóklegt námsefni sem hjálpar þeim að ná árangri sem íþróttamönnum. Mikið tillit er tekið til íþrótta- og keppnisiðkunar þeirra. Nemendur þurfa að æfa íþrótt hjá íþróttafélagi og hafa áhuga á því að bæta sig í sinni íþrótt. Nemendur á Afreksíþróttabraut þurfa ekki að vera orðnir afreksíþróttamenn, en búa yfir vilja til að verða slíkir í framtíðinni.
  • Nemendur á Rafíþróttabraut fara í gegnum sérstakt námsefni sem hjálpar þeim að ná árangri sem rafíþróttamönnum. Aukin dagleg hreyfing er á dagskrá hjá þeim og tækifæri til að stunda sína rafíþrótt samhliða náminu í fullkomnu tölvuveri NÚ.
  • Nemendur á Heilsubraut fara í gegnum fjölbreytilegt námsefni sem snýr að heilsu, hreyfingu, næringu og svefni. Aukin dagleg hreyfing og fleiri íþróttatímar eru á dagskrá á þessari braut.